Sunnudagur, 6.1.2008
Að springa í loft upp- einstök reynsla.
Í kvöld verða liðin þrettán ár frá því að ég varð fyrir sprengjuárás á flugeldasýningu. Fyrir röð tilviljana og einskæra heppni sit ég hér með höfuðið ja eins og það er, hægri fótinn á búknum, í nothæfu ástandi, og sé hvað ég er að gera.
Ástæðuna má rekja til átta skota tívolíbombuhólks sem kveikti ekki eins og honum var ætlað. Ekki kviknaði í efstu sprengjunni, og eldurinn hljóp niður og kveikti allt hitt svo það sprakk allt út í staðinn fyrir að fara upp og virka eins og kúluregn. Ég fékk stéttina af hólknum svona hárfínt í höfuðið að höfuðleðrið flettist bara aftur eins og það hefði verið skorið, var svo heppinn að vera með heyrnarhlífar sem skorðuðu það til baka er ég féll í jörðina. Hólkurinn sjálfur rifnaði í tvennt og helmingur hans stimplaðist í gegnum hnéð á mér, gleymi aldrei þegar ég sá "þennan fót liggjandi við hliðina á mér"- hafði eitthvað séð hann áður, bara ekki í þessari stellingu! Náði í hann og færði hann að vinstri fætinum man ég til að líta betur út! Sem betur fer vorum við inn á fótboltavelli og álfabrennan og áhorfendur hinum megin við, þannig að ekki sást hvað hafði skeð. Hélt síðan um lærið til að mér blæddi ekki út, því ég gerði mer einhverja grein fyrir því að það væri nú sennilega betra. Var svo fluttur á krossviðsplötu inn í bíl og á sjúkrahúsið í Keflavik. Þar heyrði ég eitt gullkornið sem ég gleymi aldrei þegar læknirinn sem tók á móti okkur spurði: eruð þið vissir um að hann sé brotinn? Þá fann ég fyrst til þegar sá sem hélt á fætinum titraði og sagði: sérðu ekki að ég held á helvítis löppinni. Þar með var ég lagður af stað í bæinn, sársaukinn að drepa mig orðið og verið að dæla í mig morfíni annað slagið, sem mér fannst nú ekki mikið til koma sem einhvers deyfilyfs man ég. Nú þegar við komum inn á Borgarspítala er farið með mig í myndatökur og svona en þegar átti að fara að taka af mér heyrnarhlífarnar kom í ljós að höfuðleðrið vildi fara með enda blóðið farið að storkna. Enginn lýtalæknir á vakt hjá þeim og mér því pakkað saman, myndirnar á magann, út í bíl, og fluttur yfir á Landsspítalann. Það vil ég meina að hafi verið mín mesta heppni hingað til í lífinu, því læknirinn sem tók við mér þar, Halldór Baldursson var mikill byssusafnari, vissi allt um púður og svoleiðis drasl. Þar var mér rúllað fram og til baka eftir löngum göngum man ég, loks þegar mér var tjáð að nú ætti að svæfa mig var það eina sem komst að: sko þið takið löppina ekki án þess að ég viti! Þau lofuðu því og þar með var ég farinn í móðu. Man óljóst eftir gjörgæslunni, og veit ekki almennilega af mér fyrr en á stofu þar sem Halldór stendur fyrir framan mig og er að segja eitthvað, en eina sem ég sé, er að ég er ekki í gipsi. Jú fóturinn er á- löngu seinna fékk ég svo smátt og smátt að vita hvers vegna var alltaf verið að kíkja á hann. Halldór var svo harður að það mátti ekki einu sinni snýta mér án leyfis, og mikið öfundaði ég "sambýlismann" minn þegar verið var að þvo honum í bak og fyrir og mig klæjaði sem mest. Dvaldi þarna í u.þ.b. mánuð. Margar skrautlegar ferðirnar niður í reykherbergi í hjólastólnum, þar sem ég vil meina að sé sú besta áfallahjálp sem völ er á fyrir sjúklinga, veitt af öðrum sjúklingum og aðstandendum þeirra. Sjúkraþjálfarinn sem var með mig taldi ég nú alveg víst að væri sadisti-fyrst, en við höfum nú hist síðan og hún fengi alveg að vinna með mína fjölskyldu! Við tóku þrotlausar æfingar í fleiri mánuði og ég gekk í fyrsta skipti án þess að nota hækjur 17. júní og studdist þá við barnavagn. Saumfarið á leðurhanskanum sem prýddi andlitið og augað einhverra hluta vegna, kemur oft upp í hugann þegar ég horfi á Björn Inga Hrafnsson, það eina athygliverða við það andlit, en það er nú önnur saga. Og það var ekki eins og lífið héldi ekki áfram þrátt fyrir þetta, það var verið að ferma elstu dótturina, við eignuðumst þá yngstu í mars o.s.frv. Ári seinna gat ég farið að vinna aftur og lífið fór að falla í einhverjar skorður.
Á hverju ári þegar sprengjutímabilið hefst og sprengingarnar byrja að dynja um allan bæ, upplifi ég hvellinn "minn", og ósjaldan herpist ég saman og eins og bíð eftir einhverju meiru. Þessi hvellur sem fylgdi mér í gegnum næturnar fyrstu árin, verður alltaf endurnýjaður á hverju ári svo lengi sem ég lifi, en honum fylgja líka myndir af öllum þeim sem studdu mig og fjölskyldu mína á þessum tíma og eru myndir sem aldrei gleymast heldur.
Athugasemdir
Já þú varst lánsamur að vera ekki eins og tvem til þrem sentimetrum hærri í hinn endan þegar þetta gerðist því þá er hætt við því að öllu ver hefði farið og sprengjubrotið tekið eithvað stærri sneið en höfuðleðrið.
En það vita þeir einir sem reynt hafa, hvað það er að missa heilsuna og vera upp á aðra kominn um lengri eða skemmri tíma vegna þess, og verða jafnvel aldrei samur aftur. En lífið heldur áfram og fátt annað að gera en læra að lifa með því og njóta þess sem maður hefur.
Ingvar, 6.1.2008 kl. 23:42
Úbbs,æts aumingja þúTakk fyrir kaffið og spjallið
Birna Dúadóttir, 7.1.2008 kl. 00:24
Úps.. þetta var agalegt... en þú samt heppinn... í óheppninni...
Gangi þér vel
Jónína Dúadóttir, 8.1.2008 kl. 09:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.